Árið 2009 fóru nokkrir íslenskir nemar í MIT af stað með verkefni sem átti að ráðast gegn þekktu vandamáli í spítalarekstri sem þó var lítið talað um. Talið er að um að allt að fjórðungur lyfjagjafa á sjúkrahúsum og hjúkrunarheimilum séu rangar á einhvern hátt en erfitt hefur reynst að koma kerfisbundið í veg fyrir að slík mistök eigi sér stað.
Í dag reka þau fyrirtækið Mint Solutions sem framleiðir hátæknikerfið MedEye sem kemur í veg fyrir lyfjamistök með því að greina lyf við rúmstokk sjúklinga og gera hjúkrunarfræðingi viðvart ef þau passa ekki við ávísaða lyfjalista. Þegar hafa þrjú sjúkrahús í Hollandi sett upp kerfið og 11 til viðbótar vinna að uppsetningu þess auk þess sem hjúkrunarheimiliskeðja í Belgíu og sjúkrahús í Bretlandi stefna að uppsetningu á næsta ári.
Fyrr á þessu ári urðu Mint Solutions fyrsta sprotafyrirtækið sem nýtir sér Hátæknihraðbraut CADIA og Vitvélastofnunar Íslands, þar sem þau höfðu áhuga á að skoðað nýja möguleika á nýtingu gervigreindar í vörur og þjónustu þeirra. „Þetta var mjög auðvelt” segir Áslaug Bjarnadóttir, yfirmaður þróunar Mint Solutions, „við bara smelltum á ‘komdu í kaffi’ hnappinn á síðunni og vorum komin á fund stuttu síðar hjá helstu gervigreindarsérfræðingum Íslands”. Þetta varð meðal annars til þess að fyrirtækið tók þátt í árlegri Gervigreindarhátíð sem haldin er í HR af CADI og Vitvélastofnun.
Ívar Helgason, einn af stofnendum og eigandi Mint Solutions, segir að þó að lyfjamistök hafi verið þekkt vandamál hafi áður verið litið á þau sem óhjákvæmilegan fylgifisk sjúkrahússreksturs. Villur geti komið upp víða í ferlinu bæði innan spítalanna og einnig hjá lyfjaframleiðendum. Þó að lang flestar þeirra valdi sjúklingum ekki varanlegum skaða þurfi helst að koma í veg fyrir þær allar til að grípa þær fáu sem reynst geta sjúklingum hættulegar eða banvænar.
“MedEye varan sem slík er töluvert flókin og gerir margt sem ekki er beint sjáanlegt á yfirborðinu en í grunninn þá söfnum við upplýsingum við rúmstokkinn meðan lyfin eru gefin og grípum þær villur sem við sjáum þar. Um leið skoðum við þær villlur til að koma í veg fyrir að þær endurtaki sig. Stundum eru þetta neflilega kerfislægar villur sem hafa verið í gangi í langan tíma á spítalanum.”
MedEye reiðir sig á tölvusjón til að greina lyfin. Tækið tekur myndir af töflunum og ber útlitseinkenni þeirra, svo sem stærð, lit og lögun, saman við myndir sem þegar eru til í gagnagrunni.
Áslaug segist binda vonir við að þátttaka fyrirtækisins í hátæknihraðbraut IIIM og CADIA muni vera gjöful fyrir báða aðila. Það sé hagur fyrirtækisins að fá til samstarfs við sig sérfræðinga í gervigreind sem kunna að búa yfir víðtækari þekkingu en finnst innan fyrirtækisins á þessu sviði. Eins sé mikill kostur að hafa samstarfsaðila í sömu borg þó svo að fyriræki starfi á alþjóðlegum markaði. Hún vonar að sama skapi að Mint Soulutions muni vera uppspretta áhugaverðra verkefna fyrir vísindamenn IIIM og CADIA.
Ívar bætir við að tölvusjón og gervigreind séu til að gera mjög ungt fag sem hafi blómstrað mjög undanfarin ár. “Þegar við byrjuðum kringum 2009 var ekki mikið um praktískar lausnir sem nýttu sér gervisjón við svona athafnir. En þetta hefur gjörbreyst síðan þá, til dæmis með sjálfkeyrandi bílum.”
Hann segir að hugmyndin hafi þótt byltingarkennd í byrjun þar sem hún byggi á algerlega nýrri nálgun á þetta vandamál. Þau hafi ekki einungis búið til nýja vöru heldur í raun búið til nýjan markað um leið því ekkert annað fyrirtæki selji lyfjaöryggi og það feli í sér áskoranir.
“Það tekur spítala langan tíma að samþykkja nýja tækni og við erum að breyta vinnuferlum sem hafa verið lítið breyttir síðastliðin 50 ár. Þetta lítur hinsvegar mjög vel út og er mjög spennandi. Fyrir þau markaðssvæði sem við vinnum á hefur okkur tekist að gera þetta að hinu nýja normi, nýju bestu leiðinni til að gera hlutina.”